Færsluflokkur: Bloggar
4.10.2010 | 17:53
Helvítis fokking fokk dugir ekki lengur.
Ég er enginn pólitíkus og hef ekki haft sérstaklega gaman af pólitík.
Undanfarið hefur mér hitnað í hamsi en þegar ég tala um mótmæli þá heyri ég úr mörgum áttum "það þýðir ekkert" "það breytir engu" og "tilgangslaust að mótmæla nema að það sé á hreinu hvers við krefjumst"
Ég settist því niður og hugsaði hvað myndi ég gera ef ég réði núna. Útkoman er þetta uppkast hér sem að sjálfsögðu er ekki fullkomið en ég er a.m.k. að reyna að finna lausnir, ekki bara að finna að.
Uppkast að aðgerðum til að bjarga Íslandi.
Utanþingsstjórn Komið sé á utanþingsstjórn sem sé neyðarstjórn sem taki ákvarðanir næstu 4 árin í stað alþingis og ráðherra áður. Utanþingsstjórn sé skipuð tveimur úr hverjum núverandi stjórnmálaflokki, X mörgum úr fræðigeiranum og viðskiptalífinu og X mörgum úr hverjum landshluta, valdir af handahófi og boðin seta að undangengnu viðtali/prófi sem gerir ráð fyrir meðalgreind að lágmarki.
Allar ákvarðanir utanþingsstjórnar þessarar miði við að um neyðaraðgerðir sé að ræða en að síðan verði kosið á ný til alþingis sem taki við hinu nýja þjóðarbúi og tilheyrandi ákvörðunarvaldi.
Eignaupptaka Bankar, orkuveitur og fiskveiðikvótinn séu tekin eignarnámi í þágu þjóðarhagsmuna. (Utanþingsstjórn taki ákvörðun um hvort að neyð kalli til þess að taka þurfi fleiri fyrirtæki eignarnámi)
Þeir sem hafa "átt" og hirt arð af kvóta fái ekki bætur en þeir sem eru skuldsettir eftir núleg kvótakaup fái sanngjarna meðferð. Kvóta sé dreift á byggðarlögin í landinu til að skapa þar atvinnu. Bankar séu ríkisvæddir (a.m.k. til bráðabirgða) og þeim sé gert að ganga þannig frá málum að enginn einstaklingur/fjölskylda borgi meira en ákveðna prósentu af mánaðarlaunum sínum til lána vegna eigins húsnæðis og gert ráð fyir að umfram kostnaður vegna lána framyfir X ár verði felldur niður og nýju þingi gert að marka nýja stefnu varðandi húsnæðismál framtíðarinnar.
Komið sé á virku ráði sem fer með mál þeirra einstaklinga/fjölskyldna sem ekki falla sjálfkrafa undir fyrri lið.
Stjórnmál Stjórnmálaflokkarnir í því formi sem nú er - séu lagðir niður með lagavaldi og gerðir upp til að fyrirbyggja áframhaldandi ítök gamalgróinna valdablokka. Lagður lagagrunnur að uppbyggingu nýrra stjórnmálaflokka með það að markmiði að lýðræðislegar kosningar fari fram eftir 4 ár og alþingi verði endurreist.
Atvinnulífið Fræði og atvinnulífsnefnd utanþingsstjórnar beiti sér til að efla atvinnulíf og koma hjólum efnahags af stað á ný með hjálp kvótans og fjármuna bankanna og hæfilegri sköttun á fyrirtæki og almenning.
AGS stefnan verði sett á að ljúka afskiptum AGS af landinu eins fljótt og unnt er.
Mér finnst að í stað þess að þurrka út millistéttina á Íslandi, auka fátækt og koma orku og öðrum verðmætum í eigu erlendra fyrirtækja sem bera hag lítilla þjóða ekki fyrir brjósti, þá þarf að leggja allt kapp á að gera millistéttina sterka því hún hefur breiðu bökin sem koma til með að halda okkur uppi. Endalausir skattar og ESB er ekki lausnin í okkar málum og því þarf að koma Steingrími og Jóhönnu frá áður en búið verður að falbjóða okkur fyrir slikk.
Ég dreg ekki taum neins stjórnmálaflokks en ég held að gott væri að geta nýtt reynslu og þekkingu sem er til staðar í þágu þjóðarinnar en ekki bara eyða allri orkunni í að halda "hinum" flokknum niðri og/eða hefna sín á honum.
SAMAN STÖNDUM VÉR - SUNDRUÐ FÖLLUM VÉR.
Ísdrottningin vakin af dvala sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2009 | 00:45
Breytingar breytinganna vegna
Eins og þið hafið efalaust tekið eftir hef ekki séð neina ástæðu til að þvælast inn á þessa síðu "mína" undanfarið. Þegar ég kom heim úr jólafríi mínu í byrjun þessa árs, var komið þetta frétta-bloggbann á okkur bastarðana og úr því mbl.is gengur svona langt til að vernda sauðsvartan almúgann fyrir orðum mínum og skoðunum tja þá hlýt ég að vera ...... í það minnsta stórhættulegt kvendi.
Það eru því eingöngu þið, bloggvinir mínir góðir sem enn getið lesið orð mín og orðið fyrir þeim mikla skaða sem þau valda. Hugsið ykkur það!
Ég gæti reyndar skilið þetta betur ef ég hefði farið fram með ósvífni og ókurteisi og vegið að mönnum á ómaklegan hátt í skjóli nafnleyndar en málið er að ég hef aldrei skrifað neitt sem ég ekki stend við hvað svo sem hver heitir eða kallast! Á meðan mbl.is hefur nafn mitt og kennitölu og getur sett ofan í við mig (eða lokað á mig) ef þeim þykir svo þurfa, skil ég ekki af hverju ég má ekki blogga við fréttir án þess að við öllum blasi skírnarnafn mitt.
Mér þykja það vera sjálfsögð réttindi að geta aðskilið ákveðna hluta af lífi mínu, til dæmis finnst mér að viðskiptavinum mínum komi mínar pólitísku skoðanir ekkert við. Atvinnuveitendum (hvort sem er núverandi eða öðrum í framtíðinni) kemur hreint ekki við hversu sterkar skoðanir ég hef á reykingum, kynhneigð, trúmálum eða bara hverju sem er og svo framvegis. Ég veit dæmi þess að fólk hafi lent í vandræðum á vinnustað eftir að hafa tjáð sig um ákveðin málefni undir nafni á mbl.is
Öll eigum við mismunandi vini, kunningja og ættingja og það sem að við kynnum að segja frá í einum hópi fólks myndum við alls ekki nefna í hópi annars fólks - Ekki það að það séu endilega leyndarmál til umræðu heldur myndi það einfaldlega ekki vera viðeigandi málefni í næsta hópi. Á mbl.is getur þú ekki einskorðað þig við hópinn sem þú vilt tjá þig við því allir hinir hóparnir "liggja á hleri" svipað og í sveitasímanum áður fyrr, bara af því að þeir þekkja til þín.
Nafnleysið gefur frelsi til að láta uppi óvinsælar skoðanir, skoðanir sem eiga ekki að þurfa að lita allar hliðar þinnar tilveru um aldur og ævi en gera það vegna smæðar okkar.
Nafnleysi er engin afsökun fyrir skítkast og rógburð og ég er sammála því að stemma þarf stigu við slíku en hvað hef ég til saka unnið?
Mér finnst mér vera gróflega mismunað, hver gætir minna mannréttinda að þessu sinni?
Ég lít því sem svo á að mbl.is hafi sagt mér upp og það versta er að ég frétti það ekki beint frá mbl.is heldur heyrði ég það fyrst nefnt í fréttatíma RÚV þar sem ég var stödd utanbæjar, fjarri öllu netsambandi og átti þess aldrei kost að bera hönd fyrir höfuð mér (lesist: skrifa blogg - mér til varnar)
Kært barn hefur mörg nöfn og sjálf geng ég undir nokkrum slíkum; Ég á föðurnafn, ættarnafn, tvö skírnarnöfn, gælunafn, viðurnefni og listamannsnafn svo eitthvað sé upp talið.
Ég veit ekki hvort ég kem til með að skrifa mikið meira hér - útiloka samt ekki neitt því maður á aldrei að segja aldrei...
Takk fyrir mig.
ÍSDROTTNINGIN
ps. Ég hef samt aldrei dregið dul á það hver ég er og þeir sem hafa haft samband við mig gegnum tölvupóstfangið mitt hafa fengið upplýsingar um mig hafi þeir óskað eftir því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2008 | 23:40
Lífsbjargarhvöt eða bara þjófnaður?
Í dag lenti ég í því að maður kom hlaupandi út úr Bónus og nánast yfir tærnar á mér þar sem ég var að bisa mínum pokum út í bíl.
Hann hljóp hratt og hélt á körfu merktri Bónus, fullri af matvöru. Þar sem ég horfði á eftir manninum er hann hvarf fyrir næsta horn rann upp fyrir mér að hann hefði trúlega hlaupið út með sínar vörur þeim megin sem gengið er inn í verslunina og þá án þess að greiða fyrir.
Strákur sem þarna var hljóp á eftir kauða og eftir svolitla stund kom stráksi aftur með körfuna og velflest matvælin. Maðurinn hafði þá séð sitt óvænna, að hann kæmist ekki undan með allt þýfið með strákinn á hælum sér, greip því eitthvað upp úr körfunni en sleppti körfunni með afgangnum í og hljóp við svo búið út í buskann.
Núna eftir á veltir maður því fyrir sér hvort að þessi maður var bara þessi venjulegi góðkunningi lögreglu að bísa eða hvort hann var kannski örvæntingarfullur svangur fjölskyldumaður sem sá enga aðra leið....
Ekki veit ég en furðuleg uppákoma engu að síður.
Fólk á ekki fyrir mat | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.12.2008 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2008 | 15:10
Dansi dansi dúkkan mín.
Þar með vitum við hver vann nafnasamkeppnina, til hamingju með það Linda Dögg.
Mér finnst fréttin reyndar hálf snautleg fyrst fjallað er um nafngift án þess að gefa upp sjálft nafnið.
Ofnæmislost eftir pöntun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2008 | 14:47
Bara ég
Sælir bloggvinir góðir.
Eins og þið hafið væntanlega tekið eftir undanfarið, þá hef ég lítið bloggað og einungis þegar villur í fréttum hafa pirrað mig. Ég les vissulega fréttir á mbl.is reglulega en hef ekki haft mikla löngun til að tjá mig um þær. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður sem hafa misþungt vægi.
Það sem vegur einna þyngst er held ég einkum tvennt, annað er að það er bara svo gaman að vera til að ég nenni ekki að sitja við tölvuna þessa dagana nema stutt og sjaldan. Tölvan er tímaþjófur þó hún sé oft skemmtilegur tímaþjófur...
Hitt tengist því að ég hef aldrei skilið af hverju þurfti að einkavæða allt (nema RÚV) og finnst mér sem einkavæðingarmenn hafi verið bitnir af eigin græðgi og hugsjónum sem mér þykir reyndar gott á þá en við hin, sauðsvartur almúginn vorum líka bitin og það að ósekju.
Kannski að ég fari aðeins nánar í mína skoðun á einkavæðingarmálum, sko: Vissulega trúi ég á ákveðna frjálshyggju og veit út á hvað hagfræði kapítalismans gengur og er þar sammála sumu, þó ekki öllu. EN ég hef aldrei haft trú á því að það gæti virkað hér á Íslandi (eins og hefur komið á daginn).
Við erum fámenn þjóð og búum á lítilli eyju og því finnst mér það vera hagur okkar Íslendinga að eiga fyrirtæki eins og t.d. Póstinn, Orkuveituna og a.m.k. einn banka sem allt væri þá rekið í nafni ríkisins til að tryggja okkur ákveðið öryggi. Vissulega á einkavæðing og samkeppni rétt á sér á mörgum sviðum en ekki öllum. Þetta hefur alltaf verið mín skoðun og hefur ekkert breyst en hins vegar finnst mér sem heimurinn hafi nú fært mér sönnur fyrir því að ég hafi haft á réttu að standa. Ég þurfti bara að yfirvinna einskonar "ég vissi það" tilfinningu áður en mér fannst ég geta farið að tjá mig
Ég hef eins og allir aðrir áhyggjur af því hvað framtíðin ber í skauti sér, ekki síst barnanna okkar. Ég er hrædd um að við endum á að sitja uppi með erlendu skuldir bankanna og finnst ekki nóg áhersla lögð á að spyrja hvað með lög og fjármálaeftirlit þessara landa? Hvar voru þau og af hverju bera þau enga ábyrgð á óförunum, íslensku fyrirtækin hafa varla stormað inn og stofnað fyrirtæki í óþökk hinna erlendu ríkja. Lög landanna hafa gert íslenskum bankamönnum kleyft að stofna til þessara skulda og fjármálaeftirlit þeirra brugðist alveg eins og okkar eftirlit svaf á verðinum hér. Þar með hljóta þau að bera einhverja ábyrgð sjálf.
Fyrst ég er byrjuð að tjá mig hér þá held ég aðeins áfram
Ég er ósátt við hve margir af þeim sem bera ábyrgð á því hversu illa fór, sitja enn í sömu valdasætunum og ætla sér að sitja áfram. Þarna eru menn sem kunna ekki að skammast sín og sitja af því að þeir komast upp með það (eru ekki flokksgæðingar eilífir?)
Í siðmenntuðum heimi segja menn af sér eftir mistök eða skandal, jafnvel þó þeir hafi ekki gert mistökin sjálfir heldur menn á þeirra vegum... en við sitjum uppi með skandaliserana á meðan þeir gera okkur að athlægi um alla veröld.
Púff jæja nóg um það.
Fínt að pústa aðeins og snúa sér svo aftur að því skemmtilega í lífinu, af nógu er að taka
Mér liggur við samviskubiti gagnvart ykkur öllum af því að vera hamingjusöm á þessum síðustu og verstu tímum en það er bara of gaman að vera til, til þess að ég nenni að taka það inn á mig.
Það eina sem gæti bætt tilveruna í mínum augum væri ríkuleg snjókoma
Ég óska ykkur alls hins besta og endilega: Reynið að njóta þess að vera til.
Knús frá Ísdrottningunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.10.2008 | 21:47
Gleðileg frétt en...
Já vissulega veitir ekkert af jákvæðum og gleðilegum fréttum á þessum síðustu og verstu tímum en þær missa marks í mínum huga þegar vegið er að íslenskri tungu.
Þó að ensk tunga eigi bara eitt orð, "birth" yfir menn og skepnur þá er ekki svo með okkar ástkæra ylhýra og því má ekki gleyma.
Einhverjir tuldra nú fyrir munni sér að fólk viti alveg hvað við er átt og að það sé alveg nóg en svo er ekki.
Merking orða skiptir máli, meira að segja mjög miklu máli og að auki er þetta arfleifð okkar sem verið er að fara illa með og gera lítið úr.
Það er engum vafa undirorpið að einungis mannanna börn geta fæðst.
Gætti nýfæddra kettlinga uns hjálpin barst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.10.2008 | 09:23
Landsbyggðin.
Er ekki kominn tími til að við flytjum til baka í litlu þorpin?
Þeir sem fluttu frá þorpunum til Reykjavíkur til að eltast við vinnu o.f.l. koma til með að flytja til baka (nema það verði unga fólkið sem flytur út á land, það er jafnvel ennþá betra)
Svo þegar þeir verða komnir í kyrrð náttúrunnar og upplifa samkennd litlu þorpanna mun rifjast upp fyrir þeim að þetta var það sem alltaf vantaði fyrir sunnan.
Þar sem er atvinna og húsnæði á viðráðanlegu verði, þangað mun fólk leita í nánustu framtíð. Það verður gaman að sjá byggðirnar blómstra á ný.
Sjálf myndi ég gjarnan vilja komast í búskap en jarðnæði kostar meira en ég get þénað á minni ævi og því útséð um það. Á sama tíma og ég þrái að komast í sveitina hefur hver jörðin eftir aðra lagst í eyði því afkomendur vilja ekki búa á þeim eða ósamkomulag erfingja gerir það að verkum að allt grotnar niður án þess að nokkuð verði að gert.
Fólksflótti frá Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.9.2008 | 07:50
Ágætis hugmynd?
Já, mér finnst það en ég reyki ekki þannig að það kemur ekki við mig.
Það besta við þessa hugmynd er að þannig ætti að vera hægt að láta reykingar "deyja út" með þeim sem reykja núna. En svo er það spurningin hvort það myndi virka eins og til er ætlast...
Tóbak verði aðeins afgreitt gegn lyfseðli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.9.2008 | 01:58
Ungabarn
Tveggja ára gamalt barn getur ekki talist ungabarn!
Í amerískri frétt hefur orðið toddler trúlega verið notað sem þýða hefði mátt smábarn, ekki ungabarn.
Stal úr sparibauk ungabarns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.9.2008 | 13:08
Þjóhnappabraut
Liggur þjóvegurinn þá um þjóhnappa þeirra?
Skondin villa hjá mbl.is
Vegurinn til Ólafsvíkur lokaðist í morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ísdrottningin hefur talað.
Spurt er
Bloggvinir
- asthildurcesil
- bardurorn
- blues
- disill
- dvergur
- ea
- eurovision
- eyvi
- fanneyunnur
- gattin
- geirg
- gretar-petur
- hallurg
- heidathord
- hexia
- hrannarb
- ingolfurasgeirjohannesson
- kaffi
- kolgrimur
- krilli
- landi
- limped
- nonniblogg
- olafurfa
- ormurormur
- pannan
- ragnarborg
- rattati
- saxi
- sibbulina
- sigurjon
- texi
- tharfagreinir
- valgeir
- vefritid
- vertu
- villithor
- zerogirl
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar